Skip to content
Búsetufrelsi
Menu
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Fróðleiksmolar
  • Lög félagsins
  • Stjórn
  • Fundargerðir
  • Um okkur
  • Innskráning
Menu
Sveitar­stjórn Gríms­nes- og Grafnings­hrepps reynir að skrá fólk út úr sam­félaginu

Sveitar­stjórn Gríms­nes- og Grafnings­hrepps reynir að skrá fólk út úr sam­félaginu

Posted on 5. september, 2025

Það er erfitt að skilja hvernig sveitarstjórn getur talið það góða stjórnsýslu að reyna að fá fólk skráð út af lögheimili í eigin sveitarfélagi – en það gerðist í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í desember sl. fór lögmaður hreppsins fram á það við Þjóðskrá Íslands að fella niður lögheimili einstaklinga sem búa í frístundahúsum, þrátt fyrir að viðkomandi séu raunverulega búsettir í hreppnum. Ástæðan? Fasteignirnar eru ekki formlega skráðar sem íbúðarhúsnæði. Við þessir íbúar sem skráð erum ótilgreind teljum yfir 20% af íbúafjölda hreppsins.

Þetta er grafalvarlegt. Ekki bara vegna þess að það brýtur gegn lögum – sem Þjóðskrá benti réttilega á – heldur vegna þess að það sýnir afstöðu til íbúa sem er bæði kaldlynd og ógn við grundvallarréttindi.

Þjóðskrá hafnar beiðninni – réttilega

Þjóðskrá Íslands hafnaði kröfunni. Í svari stofnunarinnar segir skýrt að skráning sem „ótilgreint lögheimili“ sé lögleg og nauðsynleg leið þegar fólk býr í húsnæði sem ekki má formlega skrá sem íbúðarhúsnæði – eins og frístundahús.

Slík skráning verndar rétt fólks til þjónustu, heilbrigðiskerfis, grunnskóla, atvinnu og félagslegra úrræða. Lögheimili er ekki bara skrá í tölvu – það er mikilvægur hluti af fyrrgreindum grundvallarréttindindum fólks.

En af hverju er sveitastjórn Grímsness- og Grafningshrepps að reyna þetta yfirhöfuð?

Af hverju ætti sveitarstjórn að reyna að fá fólk skráð burt úr sveitarfélaginu – fólk sem býr þar, eru þar útsvarsgreiðendur, verslar þar, mögulega vinnur þar og er hluti af samfélaginu? Ein möguleg ástæða: Að forðast ábyrgð. Ef fólk er ekki skráð, þarf ekki að veita því þjónustu, félagslega aðstoð, eða taka tillit til þess í skipulagi og stefnumótun. En svona nálgun gengur gegn öllu sem lýðræðisleg og manneskjuleg stjórnsýsla á að standa fyrir.

Við hjá Búsetufrelsi – samtökum fólks með búsetu í heilsárshúsi í frístundabyggðum GOGG krefjumst betri stjórnarhátta

Það er ekkert glæpsamlegt við að búa í frístundahúsi! Húsnæðisskortur, lífsaðstæður og val fólks hefur leitt til þess að fleiri kjósa að búa á „óhefðbundinn“ hátt. Það er hlutverk samfélagsins að finna leiðir til að styðja það fólk – ekki strípa það af réttindum.

Þetta snýst ekki bara um lögheimili. Þetta snýst um siðferði.

Þjóðskrá stóð vörð um rétt fólks til að vera skráð þar sem það býr í raun. Nú þarf sveitarfélagið að gera slíkt hið sama – ekki með útilokun og brottskráningu, heldur með virðingu, ábyrgð og lausnamiðaðri nálgun. Við erum tilbúin að koma að þeirri vinnu með sveitarstjórn og öðrum stjórnvöldum.

Við eigum öll rétt á að tilheyra. Sama hvernig húsi við búum í!

Guðrún M. Njálsdóttir, Ragna Ívarsdóttir og Þröstur Sverrisson skrifa
Höfundar skipa stjórn Búsetufrelsis og eiga heimili í Grímsnes- og Grafningshreppi og búa þar með ótilgreint heimilisfang.

Nýlegar fréttir

  • Sveitar­stjórn Gríms­nes- og Grafnings­hrepps neitar að vinna vinnuna sína
  • Sitja ekki hjá og þegja yfir ákvörðun sveitarstjórnar
  • Guðrún lét drauminn rætast og flutti alfarið í bústaðinn eftir starfslok – Upplifir sig sem annars flokks vegna framgöngu sveitarstjórnar
  • Standa undir 40% ráðstöfunartekna sveitarfélagsins en fá ekki að hafa rödd – „Og hvað fáum við fyrir fasteignagjöldin okkar?“
  • Segja meirihluta í Grímsnes- og Grafningshreppi fara með fleipur

Íbúar með fasta búsetu í heilsárshúsi í frístundabyggð – GOGG. Tilgangur félagsins er hagsmunagæsla fyrir íbúa i heilsárshúsum i frístundabyggðum í GOGG sem stefna að því að fá frístundahús sitt skráð lögformlega sem lögheimili og auka þannig á öryggi fólks og bæta réttarstöðu þess sem hingað til hefur verið skráð ótilgreint í húsi í GOGG. Tilgangur félagsins er jafnframt að stuðla að aukinni þátttöku fyrrgreindra íbúa í jákvæðri þróun nærsamfélagsins.

©2025 Búsetufrelsi |

Vefur: Draumavefir - Alvöru vefsíðugerð