Skip to content
Búsetufrelsi
Menu
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Fróðleiksmolar
  • Lög félagsins
  • Stjórn
  • Fundargerðir
  • Um okkur
  • Innskráning
Menu
Segja meirihluta í Grímsnes- og Grafningshreppi fara með fleipur

Segja meirihluta í Grímsnes- og Grafningshreppi fara með fleipur

Posted on 25. október, 2025

Hópur fólks með búsetuskráningu í Grímsnes- og Grafningshreppi gagnrýndi fullyrðingar sveitarstjórnarfulltrúa um að fólk hafi verið hvatt til að skrá sig með lögheimili í sveitarfélaginu til að hafa áhrif á kosningar.

Samtökin Búsetufrelsi segja grein sveitarstjórnarmanna í Grímsnes- og Grafningshreppi, Leikur að lýðræðinu, vera dæmi um hvernig pólitískur meirihluti reyni að afvegaleiða umræðuna. Það sé gert með því að sá tortryggni og ótta meðal íbúa.

Þrír sveitarstjórnarfulltrúar, Ása Valdís Árnadóttir oddviti, Björn Kristinn Pálmarsson varaoddviti og Smári Bergmann Kolbeinsson, segja frístundahúsaeigendur í hreppnum hafa verið hvatta til að skrá sig með lögheimili í sveitarfélaginu til að hafa áhrif á komandi sveitarstjórnarkosningar. Athæfið segja þau vera aðför að lýðræðisferlinu.

Búsetufrelsi eru samtök fólks með fasta búsetu í heilsárshúsi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í aðsendri grein á Vísi segja aðstandendur Búsetufrelsis, Ragna Ívarsdóttir, Guðrún Margrét Njálsdóttir og Þröstur Sverrisson að ef einstaklingur dvelji í frístundahúsi sínu mestan hluta ársins sé það lögheimili hans samkvæmt anda laga um lögheimili og aðsetur.

„Dómsmálaráðuneytið úrskurðaði nýlega gegn Grímsnes- og Grafningshreppi í máli gegn Þjóðskrá Íslands. Í þeim úrskurði var skýrt tekið fram að sveitarfélagið hafi ekki heimild til að hafa afskipti af lögheimilisskráningu einstaklinga, né að leggja mat á lögmæti hennar. Það vald er alfarið hjá Þjóðskrá samkvæmt landslögum. Þrátt fyrir þetta heldur meirihlutinn áfram að halda fram rangfærslum,“ segir í greininni.

Það sé sérkennilegt að sveitarstjórn sem segist tala fyrir heiðarleika og ábyrgð skuli hunsa úrskurð æðra stjórnvalds. Greinarhöfundar fari jafnvel lengra og hvetji til lagabreytinga sem myndu útiloka fólki sem býr í frístundahúsi að skrá lögheimili sitt í sveitarfélaginu sem það búi í. Þær tillögur séu andstæðar stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Höfundar greinarinnar segja það ósanngjarnt og niðrandi að útmála fólk sem hefur löglega skráð sig með ótilgreint heimilisfang eða býr í frístundahúsi sem vandamál eða að saka það um að raska lýðræðinu. „Það er dapurlegt að kjörnir fulltrúar noti vettvang fjölmiðla til að draga úr trúverðugleika eigin íbúa í stað þess að vinna með þeim,“ segja þeir, samkvæmt RUV.

Nýlegar fréttir

  • Sveitar­stjórn Gríms­nes- og Grafnings­hrepps neitar að vinna vinnuna sína
  • Sitja ekki hjá og þegja yfir ákvörðun sveitarstjórnar
  • Guðrún lét drauminn rætast og flutti alfarið í bústaðinn eftir starfslok – Upplifir sig sem annars flokks vegna framgöngu sveitarstjórnar
  • Standa undir 40% ráðstöfunartekna sveitarfélagsins en fá ekki að hafa rödd – „Og hvað fáum við fyrir fasteignagjöldin okkar?“
  • Segja meirihluta í Grímsnes- og Grafningshreppi fara með fleipur

Íbúar með fasta búsetu í heilsárshúsi í frístundabyggð – GOGG. Tilgangur félagsins er hagsmunagæsla fyrir íbúa i heilsárshúsum i frístundabyggðum í GOGG sem stefna að því að fá frístundahús sitt skráð lögformlega sem lögheimili og auka þannig á öryggi fólks og bæta réttarstöðu þess sem hingað til hefur verið skráð ótilgreint í húsi í GOGG. Tilgangur félagsins er jafnframt að stuðla að aukinni þátttöku fyrrgreindra íbúa í jákvæðri þróun nærsamfélagsins.

©2025 Búsetufrelsi |

Vefur: Draumavefir - Alvöru vefsíðugerð