Samantekt Láru V. Júlíusdóttur, íbúða “ótilgreint í hús” í GOGG
Langstærsta frístundabyggð landsins
Í Grímsnes- og Grafningshreppi (GOGG) er langstærsta frístundabyggð landsins. Árið 2022 voru skráð þar 3.266 frístundahús, en fjöldi frístundahúsa sem skráður var á öllu landinu það ár er tæplega 15.000. Þannig eru rúmlega 1/5 allra frístundahúsa í landinu í GOGG, eða nákvæmlega 21,77 %.
Meðalstærð frístundahúsa sem byggð eru á Íslandi hefur aukist á sl. 20 árum úr því að vera tæpir 60 fm fyrir 20 árum í að vera tæpir 100 fm í dag. (Grænbók m landsskipulagsstefnu, greinargerð).
Stefna sveitarfélagsins að banna fasta búsetu í frístundabyggð
Í aðalskipulagi hreppsins er eftirfarandi tekið fram í gr. 3.1.2 þar sem fjallað er um stefnu skipulagsins í dreifbýli: “föst búseta í frístundabyggð er bönnuð”. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps (GOGG) er skipuð 5 fulltrúum og meirihluti hans, 3, fylgir stíft þeirri stefnu að hafna alfarið öllum breytingum á núverandi stefnumörkun sveitarfélagsins og að byggð á skipulögðum svæðum fyrir frístundahús skuli vera þannig óbreytt.
Á fundi sveitarstjórnar þann 7. júní 2023 var tekin fyrir beiðni um búsetu í frístundabyggð í GOGG og henni hafnað með vísan til stefnumörkunar aðalskipulags GOGG. Röksemdin var auk þess að þéttleiki lóða og stærð falli illa að skilgreiningu landbúnaðar lands L3 eða smábýla þar sem landsspildur séu að jafnaði 1-10 ha. og vísað í núverandi stefnumörkun sveitarfélagsins, sem bjóði ekki upp á að mögulegt sé að breyta frístundalóðum í íbúðalóðir. Það er sem sé stefnumörkun sveitarfélagsins sem aðilar bera fyrir sig. Skv. lögheimilislögum er þó ekki hægt að neita manni að búa í sveitarfélagi með vísan til þessa, heldur á hann rétt á því að skrá sig í hreppinn ótilgreint í hús.
Lægsta útsvarsprósenta á landinu
Útsvarsprósenta í GOGG er sú næst lægsta á landinu, eða 12,89 % árið 2025. Til samanburðar er hún 14,97 % í Reykjavík. Einn hreppur á landinu hefur útsvarið lægra en GOGG, Fljótsdalshreppur.
Fasteignaskattar af frístundahúsum 40% af ráðstöfunartekjum hreppsins
Í GOGG eru á fjórða þúsund frístundahús og aðaltekjur hreppsins eru fasteignagjöld, sem eru tæplega 70% af ráðstöfunartekjum hreppsins.
Hluti fasteignateknanna er vegna virkjana í Soginu. Samtals nam álagning fasteignaskatts sveitarfélagsins árið 2022 um 663 m en þar af vegna virkjanamannvirkja 220 m. Álagðir fasteignaskattar vegna íbúðarhúsnæðis og frístundahúsa , í A flokki, námu samtals 432 m. Fasteignaskattar af sumarbústöðum voru 383 m eða tæplega 89% af öllum fasteignasköttum í A flokki. Þetta eru rúm 40% af ráðstöfunartekjum hreppsins.
Hæstu fasteignaskattar á landinu
Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði og frístundahús í GOGG var 0,45 % af fasteignamati árið 2024, en hámark hans er skv. lögum um innheimtu sveitarfélaga 0,5%.
Í Reykjavík er fasteignaskattur 0,18%. Láglaunafólk og eldri borgarar innan tiltekinna tekjumarka í GOGG geta sótt um lækkun fasteignaskatts, en skilyrði þess er að umsækjandi eigi lögheimili á fasteign sinni í hreppnum. Fasteignaskattur er settur á skv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.
Þriðja mgr. 3 gr. laganna fjallar um fasteignaskatt í 1. flokki, sem tekur til íbúðarhúsnæðis og sumarbústaða, eins og segir í greininni. Ekki er talað um frístundahús eða heilsárshús í ákvæðinu:
Sveitarstjórn ákveður fyrir lok árs skatthlutfall næsta árs innan þeirra marka sem greinir í a- og c- lið. Skatthlutfall skal vera sem hér segir:
a. Allt að 0,5% af fasteignamati:
Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, [hesthús], 2) öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.
Fjöldi íbúa og samsetning
Íbúar í GOGG eru nú árið 2025 skv. upplýsingum frá Þjóðskrá 694, þar af 545 íslenskir ríkisborgarar, og 149 erlendir ríkisborgarar. Einstaklingar 20 ára og yngri eru 116 og 63 einstaklingar 70 ára og eldri. Í byggðinni við Sólheima má ætla að ca. 90 manns séu búsettir. Séu þessar tölur skoðaðar má gera ráð fyrir að um það bil 300-350 manns séu á vinnumarkaði með lögheimili í hreppnum. Starfsmenn hreppsins eru tæplega 50.
Almennur búskapur að mestu aflagður
Almennur búskapur er að mestu aflagður, þótt í hreppnum séu rúmlega 90 lögbýli. Einhver fjárbúskapur er á 16 bæjum, hross á 14 bæjum, kýr á 3, nautgripir á 2, svín á 2, fiskeldi á einum bæ og loðdýrabú á einum bæ. Garðyrkjustöðvar eru skráðar á 3 bæjum, Sólheimum (Ölur), Ártanga og Hæðarenda.
Engin skrá til um raunverulega íbúa hreppsins
Fjöldi fólks í frístundabyggðinni býr stóran hluta ársins í sveitarfélaginu, nokkur hópur býr ekki annars staðar. Nokkuð er um að eigendur frístundahúsa dvelji erlendis hluta ársins. Eigendur frístundahúsa fá ekki að skrá lögheimili sín í húsum sínum og engin skrá er til um raunverulega búsetu.
Slökkvilið hefur þannig ekki skrá yfir búsetuna. Sama er um Neyðarlínuna. Rúmlega 100 manns hafa skráð sig ótilgreint í hús í hreppnum, en einhver fjöldi fólks sem hér býr skráir lögheimili sín annars staðar, m.a. á höfuðborgarsvæðinu og þráast við að selja fasteignir sínar þar.
Óstaðsettir í hús hafa kjörgengi og kosningarétt
Með skráningu lögheimilis í hreppinn öðlast fólk kjörgengi og kosningarétt auk þess sem útsvar er greitt til hreppsins. Óskráðir í hús geta þannig haft bein áhrif með afskiptum sínum að málefnum hreppsins. Þeir njóta þó ekki póstþjónustu, greiða hærri tryggingar og eiga erfiðara með að fá fyrirgreiðslu í bönkum fyrir þá sök eina að þeir eru “ótilgreint í hús”. Þar að auki geta þeir ekki sótt neina þjónustu til sveitarfélagsins, svo sem vegna snjómoksturs, sorphirðu, styrkja til vegalagningar eða því um líkt. Þeir sem eru óstaðsettir í hús finnast m.a. ekki á Creditinfo, en það fyrirtæki þjónustar flestar lánastofnanir landsins.
Þjónusta sveitarfélagsins við frístundahúsaeigendur nánast engin
Atvinnustarfsemi tengd frístundabyggð í hreppnum er ein meginatvinnugrein margra íbúa hreppsins, auk þess sem frístundabyggðin er mikilvæg og mjög atvinnuskapandi, ekki bara fyrir íbúa hreppsins heldur einnig fyrir nærliggjandi sveitarfélög, einkum Árborg. Margir íbúðar hreppsins vinna við smíðar, jarðvegsvinnu ýmis konar, sorphirðu, sundlaug, íþróttamiðstöð og mannvirkjagerð á Borg. Þjónusta sveitarfélagsins sjálfs við frístundabyggðina er hins vegar takmörkuð. Helst ber þó að nefna gámastöðvar fyrir sorp, sem frístundabyggðin er rukkuð sérstaklega fyrir. Sorp er hins vegar sótt heim til þeirra sem eiga lögheimili í húsum sínum.
Hreppurinn veitir sumarhúsafélögum árlega styrk til vegaframkvæmda, samtals 4,5 milljón á sl. ári, sem þá er deilt milli þeirra tuga sumarhúsafélaga sem eru á svæðinu. Að öðru leyti verða frístundabyggðirnar sjálfar að kosta snjómokstur og vegagerð.
Jafnræðisreglur þverbrotnar
Það er staðreynd að sáralítið skilar sér til til baka af fasteignagjöldunum sem eigendur frístundahúsa greiða og enginn afsláttur er af þeim veittur.
Hins vegar er stórkostlegur afsláttur veittur af útsvarinu, sem þeir einir greiða sem hér eiga lögheimili. Frístundahúsaeigendur niðurgreiða þannig skatta þeirra sem hér hafa lögheimili. Augljóst má vera að jafnræðisreglur stjórnsýsluréttarins eru að engu hafðar.
Nefnd innviðaráðherra undir forsæti sveitarstjóra GOGG sett til að kanna ólöglega búsetu í frístundabyggð árið 2022
Í nóvember 2022 skipaði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra starfshóp sem hafði það hlutverk að “greina gróflega hvar einstaklingar sem skráðir eru ótilgreint í hús eru búsettir og hvort verið sé að misnota 2.mgr. 4. gr. laga um lögheimili til að auðvelda einstaklingum ólöglega búsetu t.d. í frístundabyggð”. Formaður þess hóps var þáverandi sveitarstjóri í GOGG.
í lok júní 2023 hafði hópurinn einungis fundað einu sinni. Nefndin skilaði af sér skýrslu til ráðherra undir lok kjörtímabilsins, en sú skýrsla var aldrei birt opinberlega.
Lögheimilisskráning mannréttindamál
Að mati þeirra sem eiga heilsárshús í GOGG og hafa í hyggju að búa þar allt árið er það mannréttindamál að fá lögheimili sitt skráð í hús sín þar. Í síðustu sveitastjórnarkosningum árið
2022 var annar framboðslistinn hlynntur breytingum á búsetufyrirkomulaginu. Þann lista vantaði einungis 4 atkvæði upp á að fá þá hreinan meirihluta.
Hvers vegna þessi tregða
Í GOGG búa í reynd mun fleiri íbúar en lögskráðir eru. Það sem sveitarfélagið ber helst fyrir sig og virðist óttast eru auk skipulags um uppbyggingu landbúnaðar skyldur sveitarfélaga skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, s.s. þjónusta við aldraða og rekstur skóla. Verið getur að reyna kunni á slíkt í framtíðinni en með fleiri íbúum koma líka auknar útsvarstekjur. Gera má ráð fyrir þróun í þá veru á næstu árum, en þangað til ættu fasteignagjöldin sem greidd eru af öllum þorra þeirra sem ekki hafa búsetu í hreppnum að nýtast í þessum tilgangi.
Beðist er velvirðingar á villum í samantektinni, en hún er að mestu unnin úr upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Þjóðskrá.
Lára V. Júlíusdóttir
