Íbúar frístundahúsa í Grímsnes-og Grafningshreppi hafa margir beðið eftir úrlausn mála vegna skráningar lögheimilis í hreppnum og bundu vonir við að boðaðar breytingartillögur innviðaráðherra á lögum um lögheimili og aðsetur. Íbúarnir hafa sumir verið búsettir í húsum sínum í hreppnum um árabil án þess að fá að skrá lögheimili sín þar. Fólkið hefur komið að lokuðum dyrum, bæði hjá sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps, hjá Þjóðskrá og hjá innviðaráðuneytinu.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir sem birtist í samráðsgátt innviðaráðuneytisins nú fyrir helgi veldur vonbrigðum.
Vonbrigðin eru að í frumvarpinu sjálfu er ekki minnst orði á íbúa í frístundabyggðum og sérstaklega tekið fram í athugasemdum með frumvarpinu að ekki standi til að fjalla hér um „ólöglega fasta búsetu í orlofshúsnæði, enda skapi föst búseta ekki sömu vandamál fyrir slökkvilið og búseta í atvinnuhúsnæði.“ Frumvarpið, þótt það taki til breytinga á lögheimilislögum, tekur þannig eingöngu til þess að nú stendur til að lögleiða skráningu fólks í atvinnuhúsnæði tímabundinni aðsetursskráningu, eins konar aukaskráningu við hlið lögheimilis. Er þetta allt gert í þeim tilgangi að slökkvilið viti hverjir eru búsettir í húsum ef eldur kviknar.
Ekki vil ég draga úr því að brýnt er að huga að velferð þess hóps sem býr í atvinnuhúsnæði. Hins vegar fæ ég ekki séð hvers vegna ekki er hugað að rétti þeirra sem búa í sínu eigin húsnæði á sínu eigin landi án þess að eiga þess kost að skrá þar lögheimili sitt og spyr fyrir hverja lögin eru í þessu landi. Enn er hamrað á því að slík búseta sé ólögmæt, þótt synjun á slíku sé brot á stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Enn er klifað á ólögmætinu þótt engir dómar hafi gengið fyrir dómstólum á framkomu sveitarfélaga í garð íbúa, sem njóta ekki afsláttarkjara sem öðrum bjóðast, s.s. í sund eða af fasteignagjöldum.
Jafnræðisreglur stjórnsýsluréttarins eru þverbrotnar. Óstaðsettir í hús í GOGG greiða bæði sama útsvar og sömu fasteignagjöld og aðrir íbúar. Erum við svo heillum horfin að líta fram hjá þeirri staðreynd að landslög eru sett fyrir fólkið í landinu? Stjórnvöld, hvort sem eru ríki eða sveitarfélög hafa þann tilgang framar öllu öðru að þjóna öllu fólki jafnt. Því megum við aldrei gleyma.
Sífellt er bent á að óheimilt sé að skrá lögheimili í frístundabyggð og vísað í breytingar sem urðu á lögheimilislögum og skipulagslögum fyrir tæpum 20 árum síðan. Hins vegar stendur fólki til boða að fá skráninguna óstaðsettir í hús í hreppnum. Með því öðlast þeir eins konar hreppsómagastimpil. Þessu fólki bjóðast ekki þau kjör sem öðrum eru boðin, svo sem fyrirgreiðslu í bönkum eða skráningu í Creditinfo. Þetta fólk á ekki kost á sömu lánafyrirgreiðslu og aðrir njóta í bankastofnunum og svo mætti lengi telja. Vegna þessa ófremdarástands er beðið eftir réttarbótum.
Engar hömlur eru í Noregi eða Svíþjóð á lögheimilisskráningu fólks í húsum sínum, hvort sem þau eru í borg eða í dreifðum byggðum landanna, svo framarlega sem umrædd hús uppfylla ákvæði byggingareglugerða.
Í Danmörku hafa reglur verið settar um að þeir sem náð hafa 60 ára aldri og hafa verið búsettir í frístundahúsi í meira en eitt ár geta átt lögheimili í frístundabyggð.
Grundvallarspurningin ætti að vera sú hvaða tjóni það kann að valda sveitarfélaginu og öðrum íbúum þess að þeir sem nú eru skráðir óstaðsettir í hús í GOGG fengju að skrá búsetu sína á heimili sínu. Það myndi að minnsta kosti leiða til þess að slökkviliðið væri upplýst hverjir hafa þar lögheimili.
ÉG skora því á innviðaráðherra að setja nú þegar vinnu í að lagfæra lögin um lögheimili og skipulagslög og rýmka heimildir þeirra sem búsettir eru á skipulögðum frístundabyggðasvæðum réttindi til skráningar lögheimilis um leið og verið er að endurskoða þessi sömu lög með vísan til brunavarna.
Grímsnesi, 28. október 2023
Lára V. Júlíusdóttir hrl.