Nokkur umræða hefur verið undanfarið um búsetu í frístundahúsnæði í Grímsnes- og Grafningshreppi (GOGG).
Sveitarstjórn GOOG auglýsir grimmt hversu gott er að búa í “sveit” með þau áform að byggja þéttbýliskjarna að Borg, en hver borgar?
Staðreyndin er sú að GOGG er vel stætt sveitarfélag, það er að miklu leyti vegna allra þeirra frístundahúsa sem eru á svæðinu. Staðreyndin er hins vegar sú að GOGG veitir eigendum frístundahúsa lágmarksþjónustu, og virðist hafa takmarkaðan áhuga á að breyta því Það þurfa jú að vera til aurar í gæluverkefni á Borg sem við, eigendur frístundahúsa greiðum fyrir. Við fáum ekki þá grunnþjónustu sem íbúar á Borg fá. Samt er til fjármagn til að leggja í miklar framkvæmdir til að bæta ásýnd byggðakjarnans og endurbætur á íþróttahúsi. Hvaðan skyldi fjármagnið koma?
Í grein sem sveitarstjórnin birti nýverið kom fram: “Eiga örfá sem vilja búa í frístundahúsum að hafa það mikið skipulagsvald í sveitarfélaginu að það eitt að þau vilji búa þar ráði skipulagi svæðisins? Hvað með hina frístundahúsaeigendurna sem vilja bara eiga frístundahús? Er það stjórnsýsla sem almenningur sættir sig við?”
Þessi örfáu sem talað er um eru um það bil 14% þeirra sem búa í hreppnum! Það eru þessi “örfáu” sem greiða útsvar til hreppsins og að sjálfsögðu fasteignagjöld, ásamt öllum hinum sem eiga hús í sveitinni. Við, þessi ”örfáu”, jafngildum því að svona væri komið fram við rúmlega átjánþúsund íbúa Reykjavíkur!
Fasteignagjöld þeirra sem skilgreindir eru í “805 ótilgreint” eru sambærileg og af þeim eignum í sveitarfélaginu sem “löglegt” er að búa í.
Hér er einnig verið að gefa í skyn að aðrir frístundahúsaeigendur muni rísa upp öndverðir og mótmæla því að einhverjir vilji búa í húsum sínum allt árið. Staðreyndin er þó samt sú að margir eigendur frístundahúsa dvelja í húsum sínum allt árið eða stærsta hluta ársins nú þegar án þess að eiga þar lögheimili. Viðvera þeirra meirihluta ársins hefur hvergi sætt mótmælum eða andstöðu annarra frístundahúsaeigenda nema síður sé.
Í sömu grein kemur fram sú staðreynd að GOGG fái ekki framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og gefið í skyn að það sé tekjustofn. Slíkt er fjarri lagi. Tekjustofnar sveitarfélaga eru samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga fyrst og fremst tveir, fasteignaskattar og útsvar.Ekki framlag úr jöfnunarsjóði.
Jöfnunarsjóður, sem kveðið er á um í sömu lögum er eins konar pottur, sem notaður er til að hjálpa þeim sveitarfélögum sem eiga í vanda. Athyglisverð er sú staðreynd sem bent er á í umræddri grein að framlögin eru skert (að fullu) vegna: “þess fjölda frístundahúsa sem hafa byggst upp í sveitarfélaginu þar sem tekjustofnar sveitarfélagsins eru metnir það sterkir að ekki kemur til úthlutunar framlags frá jöfnunarsjóði.”
Í sömu grein kemur eftirfarandi staðhæfing fram: “Hins vegar er það svo að sveitarfélög geta ekki breytt frístundasvæði í íbúðabyggð bara af því að einhver vill búa þar. Málið er flóknara en svo.”
Hvert er flækjustigið? Það var fólk sem skilgreindi frístundasvæðið, það er fólk sem getur breytt því. Það þarf ekki lagabreytingu til. Í sömu grein virðist aðal áhyggjuefni sveitarstjórnar vera niðurtaka öryggishliða og “Það þarf að tryggja öllum sem eiga húsnæði á svæðinu þá þjónustu sem íbúum ber.” Hérna stendur hnífurinn í kúnni, við köllum eftir þeirri þjónustu sem okkur ber. Allir viðbragðs- þjónustuaðilar ásamt
starfsmönnum GOGG hafa aðgang að öryggishliðum þannig að þetta eru óþarfa áhyggjur sveitarstjórnar.
Í frístundabyggð GOGG eru um það bil 3300 frístundahús og eru stór hluti tekna GOGG vegna fasteignagjalda sem lögð eru á eigendur þeirra, en þjónustan sem veitt er, er nánast engin. Sem dæmi má nefna lélega sorphirðu á grenndarstöðvum, gámastöðin á Seyðishólum lokuð á sunnudögum þegar hvað mestu not eru fyrir hana af frístundahúsaeigendum og svona mætti lengi telja.
Nú liggur fyrir tillaga hjá GOGG að framkvæma seyrulosun á 5 ára fresti í stað 3 ára (var áður annað hvert ár). Sjálfsagt sparnaður hjá þeim. Sveitarstjórn vill ekkert að við notum þessi hús, bara borga fasteignagjöld og skerða þjónustu með von um að húsin standi ónotuð eða við kaupum auka losun.
Nefnd sem skipuð var haustið 2022 undir handleiðslu sveitarstjóra GOGG hefur enn ekki skilað áliti eftir 2 ár. Ítrekuðum beiðnum okkar í Búsetufrelsi um fundi til þess að ræða þetta mál hefur ekki verið svarað, “þetta kemur okkur greinilega ekki við”, svo ég noti nú orð Sveitarstjórnar:”Er þetta sú stjórnsýsla sem almenningur vill búa við?”
Krafa okkar er einföld, við viljum einfaldlega að við séum skráð til heimilis þar sem við sannarlega búum og fáum sömu þjónustu og aðrir íbúar sem borga sömu gjöld til sveitarfélagsins og við. Við sem búum í ”805 Ótilgreindu” njótum skertra kjara þegar kemur að lánafyrirgreiðslu vegna þess að við eigum í raun hvergi heima, þrátt fyrir að eiga góð hús á svæði sem skipulagt er sem frístundabyggð. Ef við óskum eftir lánshæfismati hjá CreditInfo þá birtist: “Lánshæfismat er ekki reiknað fyrir einstaklinga sem ekki hafa skráð lögheimili á Íslandi”
Borg í Borg og eigendur frístundahúsa borga brúsann. Fasteignaskattar eru um ⅔ af ráðstöfunartekjum hreppsins og koma að mestu frá þeim sem eiga frístundahús.
Er ekki kominn tími til að frístundahúsaeigendur fái að koma að borðinu og reyna að finna lausnir í stað þess að hunsa okkur?
Höfundur: Valdimar Óskarsson formaður Búsetufrelsis og íbúi í GOGG.