Samantekt Láru V. Júlíusdóttur, íbúa
Svo sem kunnugt er hefur sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps haft þá stefnu að koma í veg fyrir að eigendur frístundahúsa sem þar búa geti átt lögheimili í hreppnum með vísan til þess að hús þeirra eru á svæði sem skipulagt er sem frístundabyggð. Hefur þessi afstaða legið fyrir lengi og öll samskipti þeirra sem hér eru þá skráðir „ótilgreint í hús“ við sveitarstjórn borið þessa merki. Hér má nefna gjaldtöku í sund, skólaakstur og afsláttarkjör eldri borgara af fasteignagjöldum. Ætla má að þetta séu um 1/5 allra íbúa hreppsins.
Til að fylgja þessari stefnu frekar eftir sendi lögmaður GOGG formlegt erindi til Þjóðskrár 27. desember 2024 um að Þjóðskrá felldi niður lögheimilsskráningu allra þeirra einstaklinga sem hafa verið skráðir með ótilgreint heimilisfang í Grímsnes- og Grafningshreppi á grundvelli búsetu í frístundahúsi. Þessu erindi hafnaði Þjóðskrá 13. janúar 2025 og benti á að í greinargerð með lögheimilislögunum virtist sérstaklega gert ráð fyrir að hægt væri að skrá fólk til búsetu í frístundahúsnæði, og þá með ótilgreint lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi.
Sveitarfélagið sendi í framhaldi af höfnun Þjóðskrár, þann 17. mars 2025, stjórnsýslukæru til viðkomandi ráðuneytis þar sem þess var krafist að ákvörðun Þjóðskrár yrði felld úr gildi og Þjóðskrá verði gert að fella niður lögheimilisskráningu allra þeirra einstaklinga sem hafa verið skráðir með lögheimili í Grímnes- og Grafningshreppi á grundvelli búsetu í frístundahúsi.
Þann 30. september sl. var svo í dómsmálaráðuneytinu kveðinn upp úrskurður í málinu og því vísað frá. Í úrskurðinum er fjallað um heimild Þjóðskrár til breytinga á skráðu lögheimili einstaklinga skv. 2. mgr. 16. gr. lögheimilslaga. Lögheimilisskráningu geti Þjóðskrá breytt að eigin frumkvæði eða á grundvelli beiðni frá þinglýstum eiganda húsnæðis eða öðrum sem hagsmuna eiga að gæta. Þeir aðrir sem setji slíka beiðni fram verði hins vegar ekki aðilar að því máli og ákvörðun Þjóðskrár í slíkum tilvikum flokkist ekki sem stjórnvaldsákvörðun. Þá er það einnig mat ráðuneytisins að setji sveitarfélagið fram beiðni um breytingu á lögheimilisskráningu tiltekinna einstaklinga á grundvelli ákvæðisins sé ekki um það að ræða að sveitarfélagið geti átt aðild að slíku máli.
Þess má geta að þeir einstaklingar sem hér áttu í hlut voru ekki á neinu stigi málsins upplýstir um kröfu sveitarstjórnar um brottvísun þeirra úr sveitarfélaginu eða framvindu málsins að öðru leyti. Þeim var sjálfum aldrei gefinn kostur á að kynna sér málið, tjá sig um það eða koma að því.
Lára V. Júlíusdóttir
