Fasteignaskattur frístundahúsaeigenda greiddur í rangt sveitarfélag, grein sem Kjartan Eggertson skrifar 5. desember 2022 og birtist í Morgunblaðinu.
GREININ:
Kjartan Eggertsson: “… þá er spurt á hvaða forsendum sveitarfélag hefur rétt til að leggja álögur á frístundahúsaeigendur í formi fasteignaskatts.”
Íslendingar greiða skatta af tekjum sínum og eignum. Tekjuskattur er greiddur í ríkissjóð og annar tekjuskattur, sem kallaður er útsvar, er greiddur sveitarfélaginu þar sem skattgreiðandinn býr. Sá sem á íbúð greiðir enn annan skatt, einnig til sveitarfélagsins, sem miðast við verðmæti íbúðarinnar og kallast fasteignaskattur. Samkvæmt lögum skulu sveitarfélög hafa tekjur til reksturs með þessum hætti. Auk þess að greiða þessa skatta greiða íbúar sérstaklega fyrir ýmsa þá þjónustu sem þeir fá, eins og vatnsgjald, hitaveitugjald, sorphirðugjald og fleira. Það fyrirkomulag að þeir sem hafa hærri tekjur og eiga dýrari eignir greiði meira en aðrir til samfélagsins viðgengst í flestum löndum heims.
Hver maður telst íbúi sveitarfélags þar sem hann á lögheimili, sem þýðir að sá sem ekki á lögheimili í sveitarfélagi er ekki íbúi þar. Skattur sem hver og einn greiðir til sveitarfélags er til reksturs vegna þjónustu við íbúa þess. Ef einhver stækkar íbúðina sína eða eignast stærri og dýrari íbúð greiðir hann hærri skatt til sveitarfélagsins þar sem hann á lögheimili. Ef hann hins vegar byggir frístundahús í öðru sveitarfélagi greiðir hann skatt af því húsi til þess sveitarfélags þó svo hann sé ekki íbúi þar og njóti einskis af þeim fasteignaskatti sem hann greiðir þar.
Í lögum er kveðið á um að óheimilt sé að eiga lögheimili í frístundahúsabyggð, þrátt fyrir að öll ný frístundahús hafi á síðustu áratugum verið byggð sem heilsárshús samkvæmt byggingarreglugerð. Ekki er ljóst af hverju slík lögheimilisskráning er óheimil, en leiða má líkum að því að þar með myndi skapast þjónustuskylda sveitarfélagsins sem sé erfitt að sinna og kosti fjármuni langt um fram það sem gerist í hefðbundnu þéttbýli. Og úr því að sveitarfélag hefur ekki skyldur gagnvart frístundahúsaeigendum og ekki stendur til að þjóna þeim sem dvelja þar, þá er spurt á hvaða forsendum viðkomandi sveitarfélag hefur rétt til að leggja álögur á frístundahúsaeigendur í formi fasteignaskatts. Frístundahúsaeigendur vilja að allir fasteignaskattar sem þeir greiða til sveitarfélaga séu greiddir á sömu forsendum, sama hvert sveitarfélagið er. Ef þeir eru ekki íbúar í frístundahúsinu sínu þá greiði þeir ekki fasteignaskatt til viðkomandi sveitarfélags eða að skatturinn renni til sveitarfélagsins þar sem þeir eiga lögheimili.
Við lifum á breyttum tímum þar sem æ fleiri einstaklingar hafa fleiri en eitt aðsetur og dveljast á mismunandi stöðum á mismunandi tímum. Það væri því ekki óeðlilegt að sveitarfélag það sem sinnir lögbundnum skyldum gagnvart einstaklingi hafi skatta af öllum dvalarstöðum í eigu hans, hvar sem þeir eru, á sama hátt og það hefur skatt af öllum tekjum hans hvar sem þeirra er aflað. Á sama hátt væri ekki óeðlilegt að frístundahúseigandi gæti valið að hafa þar lögheimili sem frístundahúsið hans stendur og notið þjónustu af þeim fjármunum sem hann leggur til þess sveitarfélags í formi skatta.
Með stjórn sveitarfélaga fara sveitarstjórnir sem kjörnar eru lýðræðislegri kosningu af íbúum þeirra samkvæmt lögum um kosningar og úr því að frístundahúsaeigendur hafa ekki rétt á lögheimilisskráningu í frístundahúsum sínum, þá hafa þeir ekki kosningarétt í sveitarfélaginu og þar með engin áhrif á meðferð þeirra fjármuna sem þeir greiða sveitarfélaginu í formi fasteignaskatts, eins og þeir gera í lögheimilissveitarfélaginu.
Lögum þarf að breyta með tilliti til þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað. Með bættum samgöngum verða forsendur sveitarfélagsmarka úreltar og með breyttum lífsstíl verða viðfangsefni sveitarfélaga og samfélagsins annars konar. Það að sveitarfélag hafi rétt til að leggja á einstaklinga skatta án nokkurrar skyldu um þjónustu er ósanngjarnt og endurspeglar engan veginn þær hugmyndir sem lög um sveitarfélög byggjast á. Hugsunin í lögunum er að fasteignaskattur sé eingöngu lagður á híbýli fólks ef það á lögheimili þar. Skattur sem ekki er notaður fyrir þá sem hann greiða og er jafnvel safnað í sjóði til kaupa á „gullstöngum“ er lögleysa.
Höfundur er tónlistarkennari. kjartan@harpan.is