Aðalfundargerð
Aðalfundur Búsetufrelsis haldinn 11. maí 2025 kl. 15 :00 í Félagsheimilinu Borg
1. Fundur settur
Valdimar Óskarsson, formaður setti fundinn og stakk uppá Þresti Sverrissyni sem fundarstjóra og var það samþykkt.
Þröstur tók við fundarstjórn og stakk uppá Söndru Gunnarsdóttur sem fundarritara og var það einnig samþykkt.
2. Skýrsla stjórnar
Valdimar Óskarsson, formaður fór yfir skýrslu stjórnar fyrir síðastliðið ár:
„Ýmislegt hefur gerst í málefnum okkar í Búsetufrelsi á síðastliðnu ári, megin krafa okkar er að GOGG viðurkenni fasta búsetu í heilsárshúsum og skráning okkar í hús okkar verði framkvæmd af Þjóðskrá.
Eftir síðasta aðalfund Búsetufrelsis var send ályktun til sveitarstjórnar og var þess farið á leit að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefði samráð um úrlausn mála er varði fasta búsetu í heilsárshúsum í fristundabyggð. Þetta var hunsað og enn og aftur talað um að ekki mætti hafa fasta búsetu í frístundahúsi, ekki virðist vera skilningur á að skipulagsvaldið liggur hjá sveitarstjórn en þar er enginn vilji til samráðs. Ósk Búsetufrelsis lýtur að breytingum á aðalskipulagi. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er m.a. fjallað um landnotkun og landnotkunarflokka, m.a. íbúðarbyggð og frístundabyggð. Þar er tekið fram að ekkert mæli því í mót að á sama reit sem fellur undir fleiri en einn landnotkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem er ríkjandi en umfang annarar landnotknnar tilgreint í skilmálum. Þannig er gert ráð fyrir því að á sama reit rýmist fleiri en einn landnotkunarflokkur.
Sveitarstjórn hefur það í hendi sér að breyta einstaka reitum á aðalskipulagi í reiti þar sem fara saman frístundabyggð og íbúðabyggð. Þetta er hægt að gera innan heimildar gildandi laga, þ.e. ekki þarf sérstaka lagabreytingu. Hér nægir vilji sveitarstjórnar, sem því miður er ekki fyrir hendi. Sigurður Ingi, þáverandi ráðherra, skipaði vinnuhóp um málefnið, þessi hópur var leiddur af Iðu Marisbil, þáverandi sveitastjóra. Mjög hljótt fór um þennan vinnuhóp og var öll okkar aðkoma talin ónauðsynleg. Okkur skilst að hópurinn hafi skilað af sér niðurstöðu, langt um lengi, en hún hefur, að okkur vitandi, ekki verið gerð opinber.
„Nokkrar tölulegar staðreyndir:
Íbúafjöldi sveitarfélagsins er um 600 manns en um 100 manns eru skráðir ótilgreint í hús, eða um 16%. Ætla má að það séu mun fleiri en þessir 100 sem hafa fasta búsetu þar sem aðilar búa hér en eiga sitt annað heimila annarsstaðar eða hafa lögheimilisskráningu hjá ættingja í þéttbýli þar sem lögbundinn þjónusta fæst ekki veitt í hreppnum. Hér erum við að tala um sorphirðu, snjómokstur, skólaakstur að ekki sé nú talað um Creditinfo og lánafyrirgreiðslu.
Við skulum samt hafa í huga að við höfum kosningarétt og gætum nýtt okkur hann til að knýja fram breytingar. Í GOGG eru um 3.300 frístundahús sem gera um 20% allra slíkra á landinu og má áætla að um 70% tekna sveitarfélagsins komi vegna greiddra fasteignagjalda eigenda frístundahús, sveitarfélagið stendur vel, þökk sé okkur sem eiga frístundahús. Að mati okkar hjálpsama lögfræðings sem hér situr og hefur verið ötull talsmaður okkar, Lára V. Júlíusdóttir, þá er sveitarfélgið að brjóta jafnræðisreglur stjórnsýlunnar, nánar tiltekið 11. grein nr. 37/1993 með því að afneita búsetu okkar í sveitarfélaginu. Þess má geta sambærileg mál í okkar nágrannalöndum hafa verið leidd til lykta farsællega.
Sveitarfélagið hefur meðal annars gengið svo langt að fara fram á það við Þjóðskrá að ógilda allar skráningar í Ótilgreindu, en því var umsvifalaust hafnað af Þjóðskrá. Þetta mál bar á góma á fundi með oddvita hreppsins, þegar hún var spurð að því hvernig skráningu skuli háttað á þeim sem eiga ekki aðra eign, þá stóð ekki á svarinu: Fólk skyldi bara skrá sig ótilgreint í hús í því sveitarfélgi sem það bjó í síðast! Eru þau hrædd við kosningar og vilja losna við okkur í hreppnum?? Færa vandamálið en ekki leysa.
Nokkrar greinar hafa verið birtar, viðtöl í fjölmiðlum átt sér stað til þess að koma okkar sjónarmiðum á framfæri, má þar nefna greinar frá Guðrúnu Njálsdóttur, Þresti Sverrisyni og Láru V. Júlíusdóttur, ásamt þeim sem hér stendur. Sveitarstjórn hafði fyrir því að birta grein á vef sínum og að mig minnir í Sunnlenska líka þar sem kom fram: “Eiga örfá sem vilja búa í frístundahúsum að hafa það mikið skipulagsvald í sveitarfélaginu að það eitt að þau vilji búa þar ráði skipulagi svæðisins? Hvað með hina frístundahúsaeigendurna sem vilja bara eiga frístundahús? Er það stjórnsýsla sem almenningur sættir sig við?” Þessi örfáu sem talað er um eru um það bil 16% þeirra sem búa í hreppnum! Það eru þessi “örfáu” sem greiða útsvar til hreppsins og að sjálfsögðu fasteignagjöld, ásamt öllum hinum sem eiga hús í sveitinni. Við, þessi ”örfáu”, jafngildum því að svona væri komið fram við rúmlega átjánþúsund íbúa Reykjavíkur!
Einstæð móðir sem býr í Ótilgreindu, er neitað um skólaakstur þrátt fyrir að skólabíllinn keyri fram hjá húsinu hennar, viðkomandi borgar útsvar af sínum tekjum og fasteignagjöld til hreppsins, ekki fékkst einu sinni undaþága á meðan viðkomandi var að jafna sig af aðgerð, það væri slæmt fordæmi. Ekki er útlit fyrir að vistun eftir skóla fáist í gegn þegar barnið kemst þann aldur að eiga rétt á sliku eins og jafnaldrar, þetta er eiginlega mannvonska. Creditinfo ævintýrið þekkið þið sennilega flest, samkvæmt þeim þá búum við erlendis og lánshæfismat okkar er lægra en annarra sem hafa “alvöru” lögheimili. Sveitarstjórn leitast við að minnka eða takmarka þjónustuna við okkur sem mest má, t.d. er sorphirða oft á tíðum til skammar á gámastöðum og opnunartími á Seyðishólum mjög sérstakur, lokað á sunnudögum þegar að maður skyldi ætla að sumarhúsaeigendur hefðu mest not fyrir að nýta sér stöðina.
Í febrúar síðastliðnum áttum við Lára fund með oddvita og nýráðnum sveitarstjóra, það verður að segjast sem er að lítill sem enginn áhugi er að vinna með okkur að breytingum sem allir geti unað við, nokkuð ljóst að þau vilja okkur á burt en fá peningana okkar.
Við í stjórninni, ásamt Láru, sóttum framboðsfund fyrir síðustu kosningar að Sólheimum og náðum að gera grein fyrir okkar málum, og ber einnig að nefna Guðrún og Ragna hafa sótt fundi kjörinna aðila í Sveitarfélaginu, Viðreinsar og Samfylkingar, til að koma máli okkar á framfæri, frábært framtak sem ber að þakka fyrir.
Það sem liggur fyrir nýrri stjórn er fundur með Ingu Sæland núna í júni, ég persónulega bind vonir við að hún geri eitthvað í málum, þó til sannsvegar megi færa að þetta snúist um sveitarstjórnarmál, en gott er að skerpa á lagalegu hliðinni líka.
Ég vil þakka þeim sem í stjórn voru, Guðrúnu og Söndru, en ekki minnst Láru sem hefur barist ötullega með okkur. Munum, stöndum saman, dropinn holar steininn.“
3. Framlagning ársreiknings
Guðrún Margrét Njálsdóttir lagði fram ársreikning félagsins og var hann samþykktur.
ÁRSREIKNINGUR 2024 | ||
Innborgað | Gjöld | |
Inneign 31.12.2023 | 366.551 | |
Innvextir | 6.997 | |
Samtals | 373.548 | |
Landsbankinn | ||
Fjármagnstekjuskattur | -1.539 | |
Gjöld | ||
1984 ehf – heimasíða vistun | -3.465 | |
ÞJóðskrá 2024- gögn úrvinnsla | -49.500 | |
Þjóðskrá – endurgreitt ofrukkað | 35.800 | |
GMN endurgr -Þjóðskrá og ISNIC | -23.982 | |
RSK – tilkynning um stjórn | -2.200 | |
Heiða Björk – veitingar | -3.435 | |
1984 ehf – heimasíða | -8.900 | |
-91.482 | ||
409.348 | -93.021 | |
Inneign 31.12.2024 | 316.327 |
4. Kosningar
Formaður – kjörinn til eins árs í senn:
Valdimar Óskarsson gefur ekki kost á sér áfram. Ragna Ívarsdóttir gaf kost á sér til formanns og var hún samþykkt með lófaklappi.
Meðstjórnendur, kosnir til tveggja ára í senn:
Guðrún Margrét Njálsdóttir á eftir 1 ár í stjórn og situr áfram.
Sandra Gunnarsdóttir gefur ekki kost á sér áfram
Formaður stingur uppá Þresti Sverrissyni sem gjaldkera og er hann samþykktur með lófaklappi.
Varamaður í stjórn:
Steinþór Hreinsson gaf kost á sér og var samþykktur með lófaklappi
5. Kosning skoðunarmanns reikninga
Heiða Björk Sturludóttir gaf kost á sér og var samþykkt með lófaklappi
6. Félagsgjald
Guðrún Margrét Njálsdóttir bar fram tillögu um að félagsgjald yrði lækkað úr 5.000 kr í 2.500 kr á hvern félaga og var það einróma samþykkt.
7. Önnur mál
Katrín Brynjarsdóttir benti á að í fundarboði hefði komið fram að aðeins þeir sem eigi lögheimili í 805 hafi kosningarétt í félaginu. Ragna las upp lög félagsins sem segja að kosningarétt hafi þeir sem búi í frístundahúsi í GOGG en lögheimilisskráning skipti ekki máli. Í fundarboðinu var átt við að aðeins þeir sem eigi lögheimili í 805 eigi kosningarétt í GOGG og þarf að breyta orðalagi.
Lára V. Júlíusdóttir hrl. tók til máls og ræddi um búsetulög og tekjur sveitafélaga af frístundahúsum. Þar er GOGG eitt af 3 sveitarfélögum sem skera sig úr með mjög miklar tekjur af fasteignagjöldum og er það vegna fjölda frístundahúsa. Hún sagði einnig frá góðri persónulegri reynslu af heilbrigðiskerfinu hér og ástæðunni fyrir því að hún flutti lögheimili sitt í Ótilgreint 805.
Heiða Björk Sturludóttir tók til máls og sagði frá því að hún ætli að skrifa bók um íbúa frístundahúsa. Hún ætlar að taka viðtöl við fólk ásamt því að segja sögu félagsins og baráttu þess. Heiða sagði líka aðeins frá því hvernig hin norðurlöndin hafi leyst svona búsetumál.
Sandra Gunnarsdóttir tók til máls, þakkaði stjórninni fyrir góða samvinnu og hvatti félasfólk til að taka þátt í viðburðum og félögum í sveitinni því það sé mikilvægt að vera sýnileg.
Að lokum tók nýkjörinn formaður, Ragna Ívarsdóttir, til máls og sagði frá fundum með þingflokkum Viðreisnar annars vegar og Samfylkingarinnar hins vegar. Á fundi Viðreisnar ávarpaði hún m.a. Þorbjörgu S. Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra og benti á að brotið væri á okkur samkvæmt mannréttindalögum. Á fundi Samfylkingarinnar ræddi hún við Viði Reynisson sem sagðist vera hissa að heyra hversu margir byggju svona “faldir“ í frístundahúsum.
Þar ávarpaði hún Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra og ásamt mannréttindum benti hún á öryggismál íbúa í frístundahúsum. Forsætisráherra var brugðið við framsögu Rögnu og lofaði að fylgja máli okkar eftir. Ragna sagði líka frá að framundan sé fundur með Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra.
Að lokum sagðist hún hlakka til samstarfs allra í félaginu og benti á að félagið sé stærra en bara stjórnin
Fundi var slitið kl 16:15