Skip to content
Búsetufrelsi
Menu
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Fróðleiksmolar
  • Lög félagsins
  • Stjórn
  • Fundargerðir
  • Um okkur
  • Innskráning
Menu
Grímsnes- og Grafningshreppur - Saga úr sveitinni

Grímsnes- og Grafningshreppur – Saga úr sveitinni

Posted on 2. september, 2024

Grímsnes og Grafningshreppur auglýsir stíft dásemdina í Grímsnesi með fagurprýddum auglýsingum af fólki sem nýtur náttúru og friðar í sveitasælunni.

„Förufólkið í hreppnum“ býr þó ekki við þau kjör sem kynnt eru í auglýsingunum.

Einstæð móðir býr ásamt barni sínu á skólaaldri í húsi sínu í hreppnum. Hús hennar er staðsett á reit sem deiliskipulag tilgreinir sem frístundabyggð. Húsið er þó vel byggt og uppfyllir alla staðla um byggingar íbúðarhúsa og hún greiðir sína fasteignaskatta sem eru þeir sömu og væri húsið staðsett í reit merktum íbúðarbyggð. Útsvarið af tekjum hennar rennur líka til hreppsins. En vegna staðsetningarinnar nýtur þessi einstæða móðir ekki þegnréttar í hreppnum, og við skráningu hennar í þjóðskrá stendur „óstaðsett í húsi“.

Barnið fékk inni í grunnskóla hreppsins eftir nokkrar fortölur en henni var neitað um skólaakstur fyrir barnið jafnvel þótt skólabíllinn æki fram hjá heimili þeirra í reglubundnum skólaakstri sínum um sveitina. Móðirin varð því sjálf að sjá um akstur barnsins alla virka daga.

Móðirin fór í hnéaðgerð í vetur og óskaði eftir að barnið fengi skólaakstur á meðan hún væri rúmföst vegna aðgerðarinnar og á meðan hún væri að jafna sig. Ekki fékkst samþykki fyrir þessu hjá hreppnum, jafnvel þótt erindið færi fyrir velferðarsvið. Fjórum dögum eftir aðgerðina varð hún því að fara á hækjum að skutla barninu í skólann og sækja svo í lok skóladags.

Senn byrjar skólinn eftir sumarhlé og þá stendur einstæða móðirin frammi fyrir því að barnið er orðið of gamalt fyrir gæslu eftir skóla. Móðirin á því ekki annarra kosta völ en að sækja barnið í skólann strax eftir að skóla lýkur, því ekki fær það að sitja í skólabílnum heim til sín með skólasystkinum sínum. Þótt grunnskóli hreppsins sé alls ekki fullsetinn eru rök hreppsins þau að óstaðsettir í hús uppfylli ekki skilyrði. Ekki megi víkja frá þeirri reglu og gefa fordæmi.

Fyrir tveimur árum skipaði innviðaráðherra starfshóp til að fara yfir þessi mál og var sveitarstjóri hreppsins skipuð formaður hópsins, en hún er einnig varaþingmaður framsóknarflokksins. Ekkert hefur heyrst af störfum hópsins annað en að niðurstaðna sé að vænta bráðlega. Í nýlegri
umfjöllun í Mbl. greinir sveitarstjórinn þó frá því að lausnin sé mögulega sú að “óstaðsettir í húsi” verði skráir með heimili þar sem þeir bjuggu áður en þeir völdu Grímsnesið. Með öðrum orðum vill hún endurreysa fyrirkomulag fyrri alda um sveitfesti. Þá fullkomnast sveitarsælan, þegar hópum fólks verður gert að hverfa til síns fæðingarhrepps þegar sverfur að.

Óstaðsettir í húsi í Grímsnes- og Grafningshreppi eru í dag um 13% heildaríbúafjölda. Ekki liggur fyrir hve stóran hluta fasteignaskatta og útsvars þeir leggja til hreppsins, og fyrirspurnum um fjármálin er ekki svarað með öðru en tilvísun í ársreikninga hreppsins.

Að vera „Goggari“ er í mínum huga það að búa í sveitinni sem mér þykir vænt um, á mínu heimili, greiða skatta og skyldur sem venjulegur Íslendingur gerir og vera stollt af sveitinni minni. Ég óska þess eins að ásættanleg lausn finnist sem fyrst og manngæskan ráði för en ekki einstrengislegar geðþóttaákvarðanir eins og dæmið hér að ofan sýnir.

Guðrún Njálsdóttir
Óstaðsett í hús í Grímsnes- og Grafningshreppi

Nýlegar fréttir

  • Aðalfundur Búsetufrelsis haldinn 11. maí 2025
  • Aðalfundargerð 11 mai 2025
  • Stórfelldu malarnámi hafnað
  • Aðalfundarboð 11. mai 2025
  • Kæru Búsetufrelsisfélagar

Íbúar með fasta búsetu í heilsárshúsi í frístundabyggð – GOGG. Tilgangur félagsins er hagsmunagæsla fyrir íbúa i heilsárshúsum i frístundabyggðum í GOGG sem stefna að því að fá frístundahús sitt skráð lögformlega sem lögheimili og auka þannig á öryggi fólks og bæta réttarstöðu þess sem hingað til hefur verið skráð ótilgreint í húsi í GOGG. Tilgangur félagsins er jafnframt að stuðla að aukinni þátttöku fyrrgreindra íbúa í jákvæðri þróun nærsamfélagsins.

©2025 Búsetufrelsi |

Vefur: Draumavefir - Alvöru vefsíðugerð