Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur o.fl.
Mál nr. 201/2023 í samráðsgátt.
Innviðaráðuneytið
Undirrituð eru íbúar í frístundahúsum í Kjósarhreppi.
Vegna frumvarps þess sem nú liggur í samráðsgátt stjórnvalda viljum við koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri varðandi búsetu í frístundahúsum. Jafnframt komum við hér með á framfæri óskum um að í frumvarpi þessu verði, auk þeirra breytinga sem nú þegar er ráðgert að verði gerðar á lögum um lögheimili, bætt við ákvæði um að heimila skráningu lögheimilis eða aðseturs í frístundahúsi með takmarkaða þjónustu frá sveitarfélagi.
Gildandi réttarheimildir:
Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944
Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni, með þeim takmörkunum sem erum settar með lögum, sbr. 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrár.
Lög um lögheimili nr. 80/2018 (Löghl.)
Samkvæmt 2. grein löghl. er lögheimili sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu og með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans.
Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. löghl. skal lögheimili skráð í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) og hefur staðfang.
Lög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús nr. 75/2008
Í 2.-lið, 1. mgr., 2. gr. laga um frístundabyggð er frístundahús hús utan þéttbýlis sem aðallega er nýtt til að fólk geti dvalist þar tímabundið til að eyða frítíma sínum og þar sem að öðru jöfnu er óheimilt að hafa skráð lögheimili.
Réttarstaða fólks sem kýs að eiga fasta búsetu í frístundahúsum sínum
Lagaleg staða fólks sem kýs að setjast varanlega að í frístundahúsum sínum er sú að þau geta ekki fengið skráð lögheimili eða aðsetur á heimilum sínum. Það getur valið að skrá lögheimili sitt á annarra manna heimili eða fengið lögheimili skráð “ótilgreint”.
Að okkar mati felast í þeirri aðstöðu óþörf óþægindi, ómálefnalegar og óþarfar hindranir á frelsi fólks til að velja sér búsetu og viljum við því hvetja Innviðaráðuneytið til að bregðast við ákalli frístundahúsaíbúa um að koma á skráningarkerfi sem gerir ráð fyrir þeim möguleika að skrá búsetu eða aðsetur sitt í frísundahúsi. Íbuar í frístundahúsum í Kjósarhreppi eru um 16% íbúa sveitarfélagsins, ef miðað er við þá sem hafa fengið lögheimili sitt skráð ótilgreint í Kjós. Fjöldi þeirra sem í raun búa í frístundahúsum sínum í Kjós er í raun mun hærri því töluverður fjöldi fólks hefur þar fasta búsetu en hefur lögheimili sín skráð annars staðar.
Val um búsetu í frístundahúsi
Margar ástæður ráða ákvörðun fólks um að setjast varanlega að í frístundahúsum sínum og skulu hér taldar nokkrar:
Sparnaður: Fólk sem kýs að kaupa sér frístundahús og setjast þar varanlega að, kaupa sér alla jafna mun ódýrara húsnæði en hægt er að festa kaup á í borg eða bæ og hafa því aukið svigrúm til að lifa góðu lífi, spara og fjárfesta, eða nýta fé sitt til heilsueflingar í stressleysi yfir húsnæðisskuldum. Margt fólk sem komið er á efri ár kýs að setjast að í frístundahúsum sínum og selur fasteignir í þéttbýli til að einfalda líf sitt og losa sig við þunga byrði viðhalds og utanumhalds.
Nálægð við náttúru og friðsæld: Náttúrulegt umhverfi hefur marga góða kosti sem geta haft mjög jákvæð áhrif á heilsu fólks og minnkað streitu.
Hægara líf: Margt fólk er orðið þreytt á hraða samfélagsins innan bæja og borga. Það er því heillandi fyrir þau sem vilja lifa hægara lífi að hafa fasta búsetu sína í frístundahúsum þar sem lífið getur orðið einfaldara á margan hátt.
Börn og fjölskyldur: Fjölskyldufólk með börn kýs margt að flytja úr borginni aðeins út fyrir hana til að komast í minna stress og meiri náttúru. Það hefur án vafa jákvæð áhrif á tengsl fjölskyldna að vera í rólegu umhverfi í minni spennu vegna umferðar, umferðarljósa og annarrar ljósmengunar, fólksfjölda, verslanakjarna, hávaða og alls þess sem getur verið gott að hverfa frá og njóta góðs og heilnæms umhverfis án áreitis.
Lífsgæðakapphlaupið margumrædda: Margt fólk flyst úr borg í sveit, þar á meðal í frístundahús, til að stíga út úr lífsgæðakapphlaupinu og til að einfalda líf sitt. Það kýs margt að kaupa minna, neyta minna og nýta það sem það hefur betur. Það er oft einfalt og notalegt í sveitaumhverfi að iðka slíkt líf.
Fjarvinna oft valmöguleiki: Í nútímasamfélagi þar sem tækniframfarir hafa verið miklar á undanförnum áratugum, er oftar hægt að stunda vinnu frá heimili sínu, svokallaða fjarvinnu. Margt fólk sem kýs að búa utan borgar eða bæja hefur kosið að vinna að hluta eða öllu leyti í fjarvinnu eða vinna sjálfstætt.
Val um að búa ekki í þéttbýli: Fólk sem kýs að búa í frístundahúsi sínu vill margt hvert búa þar sem það hefur meira rými og stærri lóðir en bjóðast í þéttbýli því það kýs að hafa meiri fjarlægð í næstu hús.
Eigendur frístundahúsa í frístundabyggð eiga ekki alltaf möguleika á að sækja um að hús þeirra verði skilgreind íbúðarhúsnæði þar sem staðsetning þeirra uppfyllir ekki alltaf kröfu skipulagslaga um umhverfi og aðkomu íbúðarhúsnæðis.
Það er hins vegar ekki valkostur enn sem komið er samkvæmt lögum að heimila fólki að vera skráð í frístundahús sín eins og áður kom fram. Því fylgja vitanlega ýmis vandkvæði og óhagræði að hafa ekki skráð rétt lögheimili eða í það minnsta aðsetur í þjóðskrá því ýmis réttindi og tækifæri eru bundin því að vera með skráð lögheimili eða aðsetur í húsi.
Óþægindi, lítilsvirðing og vandræði
Vilji fólk sækja um einhver réttindi eða þjónustu er skráning iðulega tengd þjóðskrá, þannig að það skráir kennitölu sína og viðkomandi skráningarkerfi kallar fram upplýsingar úr þjóðskrá um heimilisfang/lögheimili. Því er það oft þannig að fólki er neitað um réttindi eða þjónustu því það getur einfaldlega ekki lokið skráningu því það kemur ekki neitt heimilisfang fram við skráningu. Þannig getur bæði orðið tæknilega ómögulegt að skrá umsóknir eða slíkt ef skráning er bundin þjóðskrá en líka getur verið að þó að skráning gangi í gegn með heimilisfangið “ótilgreint” þá vekur sú staðreynd oft upp tortryggni gagnvart umsækjanda vegna þess eins að hann er ekki skráður með heimilisfang og honum því hafnað um þjónustu. Á þetta meðal annars við um þjónustu fjármálafyrirtækja.
Reyndar er það svo að einhver fjármálafyrirtæki geta brugðist við þessari stöðu og skráð aðsetur fólks og þannig yfirskrifað það sem þjóðskrá hefur kallað fram og með því opnað á að fólk geti nýtt sér þjónustu þeirra. Þetta eru hins vegar óþarfa óþægindi og vitanlega er ekki öllum sem búa í frístundahúsum sínum kynntur þessi möguleiki. Fjármálafyrirtæki virðast þó tilbúin að hlusta á rökfasta viðskiptavini sem hafa þekkingu á réttindum sínum. Slíkt getur því hugsanlega ekki staðið öllum í sömu stöðu til boða.
Annað dæmi er póstþjónusta en fólk sem býr í frístundahúsum getur ekki fengið póst sendan á heimili sín. Mörgum þykja í því fólgin mikil óþægindi og vilja hafa möguleika á að fá sendan póst á heimilisfang sitt, þó ekki væri nema í póstkassa við aðalveg.
Óraunhæft að setja reglu um að fólk dvelji tímabundið
Eins og áður sagði er frístundahús skilgreint í lögum um frístundabyggð sem hús utan þéttbýlis sem aðallega er nýtt til að fólk geti dvalist þar tímabundið. Sú takmarkandi skilgreining á notkun frístundahúss er skrítin og órökstudd. Vitanlega er það þannig að eigendur frístundahúsa hafa rétt til að dvelja í húsum sínum eins og þeim hentar best og þess vegna árið um kring. Þessi lýsing á takmarkaðri notkun frístundahúsa getur því ekki verið lagalega fullnægjandi til að setja skorður við ráðstöfunarrétti frístundahúsaeigenda sem hlýtur að vera fólginn í eignaréttinum sem verndaður er af 72. grein stjórnarskrár.
Þjónusta sveitarfélaga
Íbúar í frístundahúsum gera sér flestir grein fyrir að þeir geta ekki krafist sömu þjónustu frá viðkomandi sveitarfélagi á við fólk sem hefur fasta búsetu í íbúðarhúsnæði. Margt kemur í veg fyrir að sveitarfélög geti sinnt þjónustu við íbúa í frístundabyggðum á við aðra íbúa sveitarfélaganna enda er ekki gert ráð fyrir henni í lögum eða reglugerðum. Að okkar mati ætti sú staðreynd ekki að standa því í vegi að fundin verði lausn á því að ekki er hægt að skrá lögheimili eða aðsetur í frístundahúsi.
Einn valkostur væri að hafa tvenns konar lögheimilisskráningu, A og B flokk. A flokkur væri þá lögheimili í íbúðarhúsi sem fylgdi öll þjónusta sveitarfélags og hins vegar B flokkur, svo sem fyrir fólk sem býr í frístundahúsum, sem hefði í för með sér takmarkaðri þjónustu sveitarfélags, þ.e. aðeins þá þjónustu sem væri raunhæft og hægt að veita.
Það þarf vitanlega að taka það fram að íbúar í frístundahúsum sem skráðir eru með lögheimili ótilgreint í sveitarfélaginu, greiða útsvar sitt til þess sama sveitarfélags og gerast þar með þátttakendur í að greiða fyrir þjónustu sem aðrir íbúar sveitarfélagsins kunna að njóta en hafa ekki val um að njóta sjálfir. Í því er vitanlega mikill ójöfnuður fólginn.
Að lokum:
Fólk á að geta valið hvar það dvelur eða býr sbr. 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrár. Búsetu fylgja ýmis réttaráhrif sem skipta miklu máli fyrir einstaklinga eins og tæpt hefur verið á. Við skorum á ráðuneytið og Alþingi að bregðast við ákalli íbúa í frístundabyggðum um að hægt verði að skrá lögheimili sitt eða aðsetur í þjóðskrá og fá þannig aðgang að sjálfsagðri þjónustu ríkisstofnana og fyrirtækja án mismununar.
Þóra Jónsdóttir, Eyrum 1, Eilífsdal í Kjós, 276 Mosfellsbæ
Sævar Jóhannesson, Eyrum 8, Eilífsdal í Kjós, 276 Mosfellsbæ